Farinn af Moggablogginu

Ég hef ákveðið að fara af Moggablogginu. Er farinn á wordpress: http://hjaltirunar.wordpress.com/

Upphaflega kom ég hingað af því að hérna var fullt af áhugaverðu trúfólki sem gaman er að eiga í rökrildumvið, og nú eru eiginlega bara eftir Mofi og Jón Valur (sem geta verið mjög skemmtilegir viðmælendur).

Notendaviðmótið hefur alltaf verið lélegt hérna og ég er eiginlega búinn að gefast upp á því. Svo er maður auðvitað gestur Moggans sem getur einn daginn ákveðið að maður sé ekki lengur velkominn. 


Hatursáróður

Í Fréttablaðinu í dag birtist nafnlaus auglýsing. Þetta stóð í henni:

 

Ef kristið fólk þegir þá talar Biblían.... Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. (Fyrra bréf Páls til Korin 6:9-10)

 

 Það sem ég feitletraði er bein tilvitun úr Nýja testamentinu (og nafnlausi auglýsandinn vísar á versið). Þessi auglýsing er nánast einungis tilvitnun í Nýja testamentið. 

Þess vegna verð ég að segja að mér fannst afskaplega áhugavert að sjá hvað ríkiskirkjupresturinn Baldur Kristjánsson skrifaði á opnum FB-veggi sínum:

hatursarodur 

 

 

 

Gefum okkur að þetta sé rétt hjá Baldri, að þessi tilvitnun í Nýja testamentið sé "hatursræða", hvað segir það okkur um Nýja testamentið?  Af hverju er ríkiskirkjan að halda upp á hatursrit? Ætti að dreifa riti sem inniheldur "hatursræðu í garð samkynhneigðra" til skólabarna? 


Sælir eru hræsnarar

Mikið er ég viss um að prestarnir taki fyrirskipanir Jesú um að selja eigur sínar og gefa fátækum afskaplega alvarlega. 

Ég hvet alla þá sem ofbýður þessi hræsni til þess að skrá sig úr Þjóðkirkjunni, nú er hægt að gera það rafrænt.


mbl.is Sr. Kristinn með 1.244 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki eini hópurinn

Það er annar hópur sem er líklega enn meira hataður í Bandaríkjunum, að minnsta kosti ef miðað er við reglur bandarísku skátasamtakanna.

Í Bandaríkjunum eru trúleysingjar nefnilega alfarið bannaðir í skátunum. Það er kannski skiljanlegt, ef maður hugsar út í það að þar er hugsunarháttur fráfarandi biskups ríkiskirkjunnar algengari, en hann benti á að trúleysi sé "mannskemmandi og sálardeyðandi" og hefur auðvitað oft tengt það við siðleysi.

Börn, sem eru siðlaus, skemmd og dauð á sálinni, ætti auðvitað ekki að leyfa að taka þátt í skátunum.


mbl.is Samkynhneigðir skátaforingjar ekki leyfðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæfa guðs

Presturinn Bjarni Karlsson skrifar þetta á heimasíðu ríkiskirkjunnar:

 

Þannig megum við halda vopnum okkar með skynsemi og í því trausti að gæfan er frá Guði komin. Hún er gjöf. #

 

Þetta er alveg ótrúleg fullyrðing. Ef gæfa er gjöf guðs, þá er guð klárlega á einhvern hátt að vasast í tilverunni. Og ef guð er að vasast í tilverunni á þann hátt að það kemur sumum til góðs, það sem Bjarni kallar "gæfu", þá vakna ýmsar spurningar.

Á hverju ári deyr meira en hálf milljón manns, mest af þeim börn, úr malaríu. Vill guðinn hans Bjarna ekki gefa þeim "gæfu"? Af hverju ekki?

Nei, Bjarni, það að sumt fólk nýtur "gæfu" hefur ekkert með guðinn þinn að gera, og ef þú ætlar að koma með þannig fullyrðingar, þá verðurðu að útskýra fyrir okkur af hverju hann lætur mikið af fólki njóta þeirrar "gæfu" að deyja sem börn á kvalarfullan hátt vegna sjúkdóma sem hann á víst að hafa skapað.


Óákveðnir prestar

Það er merkilegt hvað ríkiskirkjuprestar eiga erfitt með að ákveða sig hver staða kirkjunnar þeirra er. Þegar það hentar þeim, þá tala þeir um að ríkiskirkjan sé sjálfstætt trúfélag, en um leið og það hentar þeim það, þá er hún allt í einu orðin opinber stofnun. 

Sjáið til dæmis hvað Geir Waage, ríkiskirkjuprestur, segir í þessari frétt á visir.is:

„Það var miklu harðar gengið gegn kirkjunni en öðrum opinberum stofnunum í skerðingum," segir Geir. 

Öðrum opinberum stofnunum? Þjóðkirkjan er sem sagt "opinber stofnun", hún er ríkiskirkja.


Önnur merkileg umsögn

Þó svo að þessi umsögn sem fjallað er um í fréttinni sé áhugaverð, þá eru fleiri áhugaverðar umsagnir við þetta frumvarp. Þetta stendur til dæmis í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands: 

 

Þrátt fyrir almenna ánægju Mannréttindaskrifstofu við frumvarpið þykir þó tilefni til athugasemda við 10. gr. frumvarpsins er lítur að skráningu barna í trúfélög. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að skráning fari nú ekki eingöngu eftir skráðu trúfélagi móður heldur beggja foreldra. Sú breyting er jákvæð að því leyti að hún stenst betur jafnréttislög en núgildandi ákvæði. Hins vegar er Mannréttindaskrifstofan þeirrar skoðunar að það eigi að vera í verkahring foreldra barns að ákveða hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn eigi að tilheyra og því eigi þau að sjá um þá skráningu sjálf en ekki ríkið. Í 2. mgr. 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálanum) segir; „aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum, til frjálsrar hugsunar, sannfæringa og trúar, sem samræmist vaxandi þroska þess.“ Í þessu ákvæði felst því að það er skylda foreldra til að aðstoða barn við slíka ákvörðun og taka afstöðu hafi barn ekki þroska til þess sjálft að taka ákvörðun um þessi mál. Því er lagt til að ákvæðið kveði á um það að foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúar- eða lífsskoðunarfélag og fram til þess tíma verði staða barns að þessu leyti ótilgreind.

 

Vonandi mun Alþingi sjá sóma sinn í því að hætta því að skrá nýfædd börn sjálfkrafa í trúfélög. Fyrir áhugasama þá er stórkostleg grein um þetta á Vantrú og fín grein á visir.is eftir Pawel Bartozek.

 


mbl.is Ganga ekki á rétt trúfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskynsamlegur lestur

Mjög mikið af ríkiskirkjuprestum og fólki sem hefur lært við guðfræðideild HÍ virðist hafa þá skoðun að Jesús hafi verið "algert krútt". Jesús elskaði alla, boðaði umburðarlyndi, mannréttindi, afvopnun, umhverfisvernd og jafnrétti allra!

Þetta er auðvitað óraunveruleg glansmynd af Jesú guðspjallanna. Ef maður les til dæmis Matteusarguðspjall, þá fjallar Jesús miklu meira um heimsendi og refsingar guðs heldur en blóm, ást og regnboga. Jesús guðspjallanna er ekki "algert krútt". Hérna eru til dæmis ein ummæli Jesú í Matteusarguðspjalli sem eru ekki beint "krúttleg":
Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:49-50)
Ég hef einstaka sinnum haft tækifæri til þess að reyna að fá "krúttguðfræðinga" til að svara þessu ósamræmi á milli þess sem þeir segja um Jesú, og þess sem Jesús segir í guðspjöllunum. 

Til að byrja með finnst mér undarlegt að ég fæ ekki það svar sem væri eflaust skynsamlegast: "Jesú sagði þetta ekki." Guðspjöllin eru ekki beint áreiðanlegar heimildir, og biblíufræðingar viðurkenna það fúslega að stór hluti þess sem er eignað Jesú sé líklega ekki frá honum komið (hið fræga Jesus Seminar áætlaði að einungis um 18% væri líklega frá Jesú komið!). Þessir "krúttguðfræðingar" segja oft að það sé rosalega mikilvægt að lesa biblíuna út frá skynseminni, þ.e.a.s. taka mark á hvað gagnrýnin rannsókn á biblíunni hefur leitt í ljós, og þess vegna ættu þeir ekki að eiga erfitt með að viðurkenna að Jesús hafi ekki sagt þetta.

En nei, þetta er ekki svarið sem maður fær. Þegar ég benti ríkiskirkjuprestinum Bjarna Karlssyni á þetta [1, 2, 3], þá var svarið það að það væri "bókstafstrúarlestur" að skilja ummæli Jesú á þann hátt að hann væri í alvöru að tala um einhvers konar dóm og refsingu við endi veraldar. Sú ásökun var sérstaklega undarleg þar sem að í því tilfelli var ég að túlka dæmisögu, og ég skil ekki einu sinni hvernig það er hægt að túlka dæmisögu bókstaflega. Svar Bjarna var á þá leið að Jesús var í raun og veru ekki að tala um "alvöru dómdag" heldur var hann að "vísa til þess að hver dagur sé dómsdagur og að það sem maður geri og segi fel í raun alltaf í sér val". 

En ef maður les þetta og fleiru ummæli í guðspjöllunum í sögulegu samhengi (sem að frjálslynda trúfólkið segir að sé svo rosalega mikilvægt), þá er alveg augljóst hvað er verið að ræða um. Í frumkristni trúðu menn að heimsendir væri handan við hornið og þá myndi guð koma og "dæma lifendur og dauða" (eins og segir í postullegu trúarjátningunni). Þetta er ekkert umdeilt meðal nýjatestamentisfræðinga, og hver sem er getur labbað inn í Landsbókasafnið og flett upp í ritskýringarritum. Þau munu öll viðurkenna þetta. 

Þannig að frjálslyndir trúmenn virðast frekar vilja afneita því að ummæli Jesú þýði það sem þau þýða augljóslega, frekar en að annað hvort viðurkenna að glansmyndin þeirra sé röng, eða þá að viðurkenna að ummælin séu ranglega eignuð Jesú.

Nýtt dæmi um þetta eru örstuttar umræður við bloggfærslu guðfræðingsins Jóhönnu Magnúsardóttur. Jóhanna byrjar á því að segja að boðskapur Jesú hafi verið "einfaldur" og að hann kristallist í tvöfalda kærleiksboðinu. Ég bendi á í athugasemd að þetta sé ekki svona einfalt, Jesús tali líka um að refsa fólki við heimsendi. Þá kemur þetta svar sem að mér finnst kristalla það sem ég hef skrifað fyrr í þessari færslu:

Svo ítreka ég það sem BRS segir, að lesa [biblíuna - HRÓ] með almennri skynsemi í bland við boðskap Krists. -  
Það má alveg taka texta um að varpa í eldsofn og leika sér með hann. Við getum varpað í eldsofn slæmum siðum, eitthvað sem við viljum losna við úr hugarfari okkar, - t.d. neikvæðni í garð náungans. Henni má svo sannarlega varpa í eldsofn.
Hún segir fyrst að það eigi að lesa ummæli Jesú "með almennri skynsemi", en strax í næstu setningu kemur hún með túlkun á ummælum Jesú sem hafa ekkert með almenna skynsemi að gera. (og svo segir hún auðvitað að ég nálgist biblíuna á bókstafstrúarforsendum!)

Ef við ætlum í alvöru að lesa þetta trúarrit með "almennri skynsemi", þá þurfum við að lesa textann í samhengi (þar með talið sögulegu). Við lestur hans er augljóst að það er verið að ræða um að henda fólki í eldsofninn, ekki "slæmum siðum". Munu slæmir siðir "gráta og gnístra tennur"? Skoðum til dæmis þennan texta úr Matteusarguðspjalli, og veltum því fyrir okkur hvort það sé um að ræða slæma siði eins og "neikvæðni í garð náungans" eða fólk:

Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ,Herra, herra,` ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?`Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.` (Mt 7.21-23)

Augljóslega er um að ræða fólk. Og ef maður kíkir í sögulega samhengið, þá er þarna einfaldlega um heimsendapælingar sem voru mjög algengar á þessum tíma. 

Það sem mér finnst standa upp úr er að þegar frjálslynt trúfólk eins og Bjarni og Jóhanna tala um að lesa biblíuna "með almennri skynsemi" eða í sögulegu samhengi, eða eitthvað álíka, þá eru þau í raun og veru ekki að hvetja til þess, af því að þau stunda það augljóslega ekki, heldur eru þau einungis að reyna að setja sínar eigin óskhyggju-"krútttúlkanir" á fræðilegri stall. 

Á sama hátt, þá hafa ásakanir þeirra um bókstafstrú eða að einhver sé að túlka texta "bókstaflega" ekkert með það að gera, heldur er þá viðkomandi einfaldlega að túlka textann á þann hátt að það samræmist ekki krúttmyndinni sem þau hafa af biblíunni.


Trúarafneitunarblogg prests

Ég skrifaði nýlega grein á Vantrú um meinta trú presta. Þar fjalla ég um þá merkilegu staðreynd að þrátt fyrir að prestar lofa því við vígslu sína að þeir játist undir játningar ríkiskirkjunnar, þá trúa þeir ekki ýmsu veigamiklum atriðum í þeim.

Ríkiskirkjupresturinn Baldur Kristjánsson hlýtur að hafa lesið þessa grein, því að hann skrifaði nýlega pistil þar sem hann neitar einmitt nokkuð af þessum trúaratriðum sem ég nefni:

 

Og við erum of vel lesin til þess að trúa bara Biblíunni bókstaflega. Að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum. Heilagur andi hafi átt barn með Maríu og að á dómsdegi rísi dauðir úr gröfum sínum, hafið skili sínu og þeir sem ekki hafi játast Kristi þeim verði hent í eldinn. Meðan við bíðum eftir þessu getum við alið á gömlum fordómum, þjösnast á hommum og gætt þess að konur verði ekki biskupar og helst ekki prestar.

 

Baldur segir þarna að hin ýmsu trúaratriði, eins og meyfæðing Jesú og upprisu mannsins sé ekki við hæfi upplýsts fólks, heldur sé það vitleysa á borð við trú á sex daga sköpun, fordóma gegn samkynhneigðum og andstöðu við prestvígslu kvenna. 

Hvað ætli Baldur geri þegar hann fer með postullegu trúarjátninguna í messum? Er hann með krosslagða fingur þegar hann fer með hana? Þegir hann bara á meðan fólkið sem mætir segir "getinn af heilögum anda, fæddur af Maríu mey", "mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða" og "upprisu mannsins"? 


Barn skal við fæðingu vera skráð....

Ímyndum okkur að á Íslandi væru álíka fáránleg lög um stjórnmálaflokka og um trúfélög. Við fæðingu myndi barn sem sagt vera sjálfkrafa skráð af ríkinu í stjórnmálaflokk móður.

Ímyndum okkur líka að ríkið myndi styrkja stjórnmálaflokkana um ~10.000kr á ári fyrir hvern skráðan meðlim. 

Ef að þá yrði lagt til að breyta sjálkrafa skráningunni örlítið, þannig að færri börn væri sjálfkrafa skráð í stjórnmálaflokk móður, þá myndi ég ekki trúa þeim mótmælum frá stjórnmálaflokkunum að með því væri verið að "ganga gegn hagsmunum barnsins".  Augljóslega væru þeir á móti því af því að það gengur gegn hagsmunum stjórnmálaflokkanna.

Það sama gildir augljóslega hér. Ef að börn eru ekki skráð sjálfkrafa í trúfélög við fæðingu ef foreldrarnir eru ekki eins skráðir, þá munu einhver börn ekki vera skráð sjálfkrafa í ríkiskirkjuna, og þá mun ríkiskirkjan ekki fá jafn mikinn pening frá ríkinu í formi sóknargjalda.

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að Kalli er á móti þessu, ekki af því að þetta "gengur gegn hagsmunum barnsins". Það bara hljómar ekki vel að segja það hreint út.


mbl.is Veruleg þáttaskil í trúmálapólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband